Vissir þú...

Vissir þú að mesta áhætta á mjaðmarbroti vegna beinþynningar er hjá íbúum Noregs, Svíþjóðar, Íslands, Danmerkur og Bandaríkjunum.  

Vissir þú að 50 ára gömul kona hefur 2,8% líkur á því að látast vegna vandamála tengdum mjaðmabroti á þeim árum sem hún á eftir ólifað.

Það eru jafnmiklar líkur og hún látist úr brjóstakrabbameini og 4x meiri líkur en að hún látist úr endometrial-krabba!

 

Ef þú hélst líka að einungis konur fái beinþynningu þá eru 30% mjaðmarbrotanna og 20% samfallsbrota í hrygg af völdum beinþynningar í körlum.

Í Svíþjóð eru fleiri legudagar vegna beinbrota tengdum beinþynningu en vegna blöðruhálskirtilskrabbameini.

 

Í könnun sem Gallup gerði fyrir Beinvernd fyrir nokkru þá sögðust 98% aðspurðra þekkja til beinþynningar og vera meðvitaðir um sjúkdóminn. Það er nokkuð góður árangur hjá félagi sem var stofnað fyrir einungis 10 árum síðan og það er ekki svo ýkja langt síðan það var farið að líta í beinþynningu sem sjúkdóm.

 


X-?

Nú er sá tími þegar farfuglarnir streyma til landsins og helga sér óðöl með því að syngja, dansa og gera sig breiðari en hinir svo þeir fái nú eitthvað fyrir sinn snúð. 

Ein tegund þessara farfugla er nú sjaldgæfari en aðrar og sést aðeins á fjögurra ára fresti. Hún virðist koma í bylgjum yfir landið og fjölmiðlar fara mikinn í umfjöllun sinni um hvar áhugasamir fuglaskoðarar hafi séð þá og hver söngur þeirra sé þetta árið. Þetta er hinn alíslenski GOÐI, sá farfugl í heiminum sem á elstu samfelldu söguna eða allt frá árinu 930.

Flestir fuglanna reyna að sperra mislitfögur stélin og syngja einnig misfalskan söng í tilraunum sínum til að auka stærð óðala sinna. Það hafa myndast skrýtnir hópar áhangenda í kringum suma undirstofna þessara farfugla og vægast sagt hverjum hópi sínir fuglar fegurstir og vilja meina það að þeir beri af öllum öðrum. Stundum fara þessir fuglaaðdáendur meira segja um í flokkum og reyna að aðstoða sína uppáhaldsfugla í að verja óðöl sín fyrir öðrum fuglum og aðdáendum þeirra.

Sumir segja að þessir aðdáendahópur sé nauðsynlegur því varpstofninn telur ekki nema um 63 hræður en þó virðist alltaf vera nóg af geldfuglum í stofninum sem eiga oft erfitt uppdráttar vegna ágangs hinna ýmsu aðdáenda.

 

Margir aðdáendanna hafa líka brennandi áhuga á skyldum stofni GOÐANS eða hinum minna þekkta héraðsgoða, sá stofn er í mun betri málum enda er varpstofn hans vel yfir 100 hræður og eins og frændur hans þá er til mikill og sterkur stofn geldfugla. Héraðsgoðinn hegðar sér eins og frændi sinn GOÐINN og ferðast einungis á fjögurra ára fresti, hann er þó mun meiri staðfugl en frændi sinn en það er ekki óþekkt að flækingsfuglar fari á milli stofnanna tveggja og taki upp háttalag hvors annars. 

 

Margir hafa þó horn í síðu GOÐANS, finnst söngur hans fara illa í eyru og fá fljótt leið á misfögrum stélum GOÐANS. Flestir hlakka þó þegar ferðalögum hans lýkur enda marka þau tímamót oft nýja tíma á Íslandi og margir gera sér dagamun á þessum tímamótum.

 

Mér persónulega er farið að leiðast söngur GOÐANS og ég er farinn að hlakka til þegar hann dregur sig í hlé. Að vísu er ein furðuleg skepna sem einn undirstofn GOÐANS (D) hefur tekið undir sinn verndarvæng en það er blöðruselur nokkur sem skipar 1. sæti í Reykjavík norður, hann fer afskaplega í taugarnar á mér og mér finnst að Hringormanefnd ætti að taka í taumana.


Keilir - vindrassgat

Í hádeginu á mánudaginn uppgötvaði ég hversu gott veður var úti þegar ég og Tinna ákváðum að skella okkur í hádegismat eitthvert annað en í matsali LSH. Þá hugsaði ég nú með mér að það væri eflaust fínt að skella sér eftir kl. 16 upp að Vífilstaðavatni og bleyta í einni flugu eða svo.

Hinsvegar þegar ég geng út af LSH um 16 þá var veðrið ekki alveg eins yndislegt og fyrr um daginn. Það var aðeins farið að gjóla svo ég ákvað að fara í göngutúr í staðinn fyrir að berja vatnið í gjólunni. Ákvað því að renna suður í Afstapahraun og ganga á Keili en þangað hafði ég ekki farið í nokkuð langan tíma.

Eftir að ég lagði við Höskuldarvelli og böðlaðist í gegnum hvasst hraunið sem er sem betur fer einungis mjó ræma, hugsaði ég með sjálfum mér að ef einhver myndi týnast á þessum slóðum þá myndi ég eflaust skrópa í útkallinu. Það er ekki mönnum bjóðandi að ganga í hvössu apalhrauni sem er svo í þokkabót vaxið mosa frá ísöld.

Leiðin frá bílastæðinu er ekki svo ýkja löng, Google Earth segir 2,5 km svo sennilega slagar það hátt upp í 3 km ef allt er tekið með. Maður er því ekki lengi að skjótast að fjallinu. Þegar maður kemur svo að því er nokkuð greinilegt hvert skal haldið því það hefur myndast stígur upp fjallið sem á köflum hefur annað hvort fokið burt eða grjót hrunið yfir hann.

Þegar ég gekk upp fjallið áttaði ég mig á því að blessuð golan sem hafði hindrað flugukastsæfingar í Garðabænum var orðin að andskotans djöfulsins vindsperringi sem ætlaði að fínpússa glerunginn burt af tönnunum mínum. Það var semsagt nokkuð sandrok á Keili. Gangan var þó ekki alslæm, stígurinn var að mestu leyti í skjóli en þegar ég var berskjaldaður fyrir vindinum átti hann það til að rífa hressilega í mig.

Upp náði ég þó þrátt fyrir rok og sanblásningu, uppi á tindi er Alcankassi þar sem gestabókin er geymt og sást greinilega hvernig veðurfarið hefur verið á Keili sl. daga því allir göngumenn sáu ástæðu til að minnast á rokið á tindinum.

Lítið annað var hægt að gera þarna eftir skrif í gestabók og einn eftirlitshring en að halda niður á við. Á niðurleiðinni rak ég augunn í smá fjallgarð sem er þarna við. Hef ekki nafnið eins og er en mig minnir að þar sé vatn sem heitir Spákonuvatn. Það væri gaman að kíkja þangað og litast um.

~Keilir

Smelli hérna mynd af Keili, myndin kemur héðan.

Keilir er nokkuð sérstakt fjall, stendur afskaplega einn og yfirgefinn á Reykjanesskaganum en samt nokkuð tignarlegur.

Hann nær 379 m yfir sjávarmáli þar sem hann er hæðstur og ef minið svíkur mig ekki þá hefur hann myndast við gos undir jökli og er því úr móbergi (sem molnar afskaplega auðveldlega niður í salla sem fýkur um allt)

Göngutími: 2 - 3 klst, þó maður færi mjög rólega þá ætti gangan ekki að taka meir en 3 klst.


Grindarskörð

Ég fór í síðustu viku í smá göngutúr frá Bláfjallaveginum sem liggur undir Lönguhlíðinni (kann ekki neina betri lýsingu á honum) og gekk upp í Grindarskörð.

Mér leist eiginlega ekkert á veðrið þegar ég kom að neyðarskýlinu við veginn, það svona rétt hékk þurrt en var við það að detta í rigningu sem hefði ekki verið skemmtilegt til viðbótar rokinu sem annars var að berja á mér.

Ég hafði verið á Fagnámskeiði í leitartækni hjá Björgunarskóla SL í haust og ein æfingin fór fram einmitt þarna á slóðanum á gömlu Selvogsleiðinni. Ég var að vísu í hlutverki stjórnanda leitarinnar á þeirri æfingu og gekk því lítið sem ekkert. Langaði alltaf í vetur að kíkja þarna aftur uppeftir og rölta um.

Leiðin sjálf er nokkuð augljós enda er hún bæði stikuð og vörðuð. Það var eflaust af góðri ástæðu hvers vegna forfeður okkar ákváðu að hlaða upp vörður um allar heiðar hér á árum áður í staðinn fyrir að smella niður girðingastaurum eða vegpóstum. Bæði það að vörðurnar sjást mun betur í snjó og standa vel uppúr og einnig þola þær veður og vinda ólíkt betur en blessuðum stikunum sem annars gera sitt gagn ágætlega í fáein ár og verða svo að braki.

Það er nokkuð gaman að ganga eftir slóðanum því hraunið sem hafði runnið niður skörðin hefur myndað ýmsar kynjamyndir þegar það storknaði. Það má sjá marga litla skúta, hella og göng við slóðann sem eflaust gætu lumað á stærri holrýmum ef vel væri leitað sbr. Maríuhella, Skátahellinn og Fálkahelli í Heiðmörk.

Þegar maður hefur gengið eftir slóðanum í dágóða stund fer maður ósjálfrátt að velta því fyrir sér afhverju maður virðist ekki færast neitt nær skörðunum en blessaður bíllinn og neyðarskýlið virðast færast fjær og fjær. Fjarlægðirnar eru mjög sérstakar þarna að blekkja augað mjög auðveldlega. Ég áttaði mig á því að ég skuldaði Ágústi, Samma og Svenna næstum því afsökunarbeiðni frá því fyrr um haustið. Þeir höfðu verið í fyrsta hópnum sem ég sendi af stað í æfingunni á leitartækninámskeiðinu og ég hafði verið að skammast yfir bölvuðu drollinu í þeim þegar ég sá að hópurinn virtist ekkert komast áfram úr sporunum. Sá núna að það var kannski ekki alveg rétt hjá mér að halda það því það er dágóður spotti upp í skörðin.

Skörðin sjálf eru nokkuð falleg, það má sjá hvernig veðráttan hefur skorið út myndanir í móbergið í skörðunum. Þegar maður kemur svo uppúr skörðunum blasa Bláfjöll við manni og heiðin vestan við þau. Það er óttalega ómerkilegt landsvæði þegar maður lítur yfir það en þegar nánar er gáð er þarna margt að skoða.

Þónokkrir gígar sem eru mjög stórir eru vel faldir í landslaginu og ekki vildi ég fyrir nokkurn mun þora að vera þarna á vélsleða í blindu. Það væri jafn gáfulegt og spila rússneska rúllettu með 5 skot í byssunni. Frá gígunum gekk ég svo í austur og kom að litlum dal sem ég þekki ekki nafnið á og þaðan fór ég aftur í norður í áttina að neyðarskýlinu.

Á leiðinni til baka þá fór aðeins að dropa svo ég herti mig og var nokkuð snöggur til baka að bílnum. Þessi gönguleið kom mér þægilega á óvart og skrýtið að ekki skuli fleiri fara þarna um, þá á ég að vísu ekki um helv..... crossarann sem brunaði þarna um skörðin.  


Dedicated follower of fashion

Sungu Bítlarnir ekki þessi orð hér eitt sinn? (voru víst Kinks skv. ábendingu hér að neðan)

Mér varð hugsað til þeirra þegar ég fór á vapp um umhverfi Reykjavíkur í dag.

(Fjall dagsins í dag er Esjan, nánar tiltekið Þverfellshornið 772 m yfir sjávarmáli og því miður stórkostlega vanmetið fjall.) 

Eftir letikast gærdagsins þá fór ég af stað í morgun og sótti bílnn minn sem var búinn að vera í geymslu við GSK síðan á föstudag og hélt af stað í áttina að Esjunni. Þegar ég kom að bílaplaninu við Mógilsá sá ég að nokkuð margir höfðu fengið sömu fluguna í höfuðið og ég því bílastæðið var fremur fullt. Út um allt voru skankar í teygjum eða rassar í spandexi í einhverri jógafettunni.

Ég skellti mér í gömlu Haglöfs gönguskónna mína sem hafa þurft að þola þónokkrar barsmíðar og eiginlega gáfust þeir upp í Kerlingarfjöllum sl. haust. Ég framlengdi líftíma þeirra nokkuð með últrasterku Grettistaki sem virðist halda þeim ágætlega vel saman. Að auki hafði ég með mér lítinn poka með jakka, húfu og vettlingum + smádót sem ég er alltaf með í styttri ferðum. 

Á leiðinni upp var ekki laust við að ég færi að finna til smá minnimáttarkenndar og líða eins og umrenningi þarna á slóðanum. Ég gekk fram á og mætti fólki sem greinilega hafði komið við í Intersport eða Útilífi á leiðinni upp að Mógilsá. Ég er eiginlega kominn á þá skoðun að nánast allir nema tveir gamlir menn sem nota bene skokkuðu upp á Þverfellshorn og niður aftur eins og ekkert væri (gerðu mér eiginlega skömm til með þessu háttalagi sínu) voru annað hvort nýkomnir úr útivistarverslun eða áttu stórafmæli í gær. 

Ekki það að ég hafi eitthvað á móti fólki sem hefur keypt sér nýlega útivistarfatnað en ég skil ekki afhverju þetta fólk þarf að taka allan útbúnaðinn með sér upp á Esjuna. Ég meina ég mætti a.m.k. 10 hjónum / pörum sem voru BÆÐI með 40 lítra bakpoka með sér, göngustafi og gott ef ég sá ekki glitta í ísaxapar á 3 eða 4 bakpokum.

Það er greinilegt að sumir ætla að taka sumarið með trompi og nota allar mögulegar og ómögulegar útivistargræjur sínar til þess. Að vísu voru sum þessara para það klár að þau skildu pokana eftir við Stein áður en þau fóru síðasta spölinn upp hornið.

 

Annars var bara fínasta veður á Esjunni í dag, skyggni var fremur fágætt en það sást ekki lengra en að Straumsvík. Það kom mér þó á óvart hvað það var fínt að tölta út Langahrygg sem er fyrir neðan Þverfellshornið. Flott útsýni af honum yfir Kollafjörðinn og borgina.

 

Ég held að næst verði Skálafellið fyrir valinu á fjalli dagsins. 

Grindarskörð voru "fjall" dagsins í síðustu viku en ég hreinlega gleymdi að skrifa um þá ferð, bæti úr því seinna.  


Tölfræði bölvun

Tölfræði er ekki mitt helsta áhugasvið, sérstaklega ekki eftir áfangann Hræðileg meðferð 101 síðasta vor. Nú sit ég og klóra mér í kollinum yfir þeim tölfræði útreikningum sem ég á að framkvæma og mér nánast fallast hendur. SPSS forritið sem ég á að vinna á hrynur með reglulegum hætti og það veldur alls ekki skemmtilegum hugsunum hjá mér.

Hver er annars munurinn á "One-way Anova", Two-way Anova" og "Three-way-Anova"?

Hvað annars í ósköpunum gera þessar aðgerðir?

 

Mér verður hugsað til Silvio Berlusconis fv. forsætisráðherra Ítalíu í sjónvarpsviðtali sem ég sá, hann sagði, "Það er til þrjár gerði af tölfræði, tölfræði, góð tölfræði og hrein lygi."


Lélegasta mynd síðustu ára = HACKERS

hackersÉg rifjaði upp í dag kynni við einhverja ömurlegustu mynd síðasta áratugar, Hackers en í henni leikur einmitt (nú stórstjarnan og ættleiðingarvélin, þá glötuð leikkona og er enn hálf glötuð) Angelina Jolie! 

Einnig leika í myndinni Jonny Lee Miller sem átti ágætisleik í Trainspotting sem BadBoy síðan þá hefur ferillinn verið í ræsinu (myndir á borð við Æon Flux og Dracula 2000!!!). Það má líka sjá þarna ungan pilt að nafni Jesse Bradford sem sumir vilja kalla íslandsvin en hann náði því afreki að leika í The Flag of our Fathers. Sennilega vildi Clint fá mann sem gæti synt en Jesse sýndi að hann gæti synt í myndinni Swimfan (gat þó lítið leikið í þeirri mynd).

Að lokum vil ég nefna hann Laurence Mason, hann er gæinn sem maður sér í öllum þáttum sem sýndir eru á Skjá 1 (stundum Stöð 2) en virðist aldrei geta haldið sér í einni þáttarröð í einu. Glöggir lesendur átta sig um leið en fyrir hina þá er hér slóð að ferlinum hans á imdb.

Einnig leika í myndinni ótilgreindur fjöldi ómerkilegra leikara sem ég ætla ekki að heiðra með því að nefna á nafn.

Ég man að mér var boðið á forsýningu þessarar myndar í Laugarásbíói þegar myndin var sýnd hér á landi og var svo hneykslaður á því að einhver gæti gefið svona lélega kvikmynd út, hvað þá ætlað sér að rukka inn á hana að ég var beðinn um að tala ekki um myndina í skólanum. Ég varaði þó vini mína við því að sjá þessa ömurð.

Ég stóðst því ekki mátið þegar myndin var sýnd í dag á Stöð 2 BÍÓ að líta aðeins á hana. Skyldi hún vera jafnslæm og mig minnti eða skyldi hún vera eins og sumar myndir sem maður hneykslast á en venjast svo og eru einfaldlega bara uppfyllingarefni (þ.e.a.s. myndir sem eru sýndar á Stöð 2 frá kl 1 - 5 á nóttunni)?

Ég hefði betur látið það ógert, myndin er eiginlega verri en mig minnti hún er alveg hreint skelfileg. Ég er enn með kjánahroll yfir því að hafa séð myndina. 

En það má þó sjá Angelina hefur einungis elst, hún er ennþá jafnléleg leikkona og þá.  

 

 


Varúð Wulffmorgenthaler getur verið hættulegur heilsunni

Nú í þessari leiðinda viku veikinda og aðgerðarleysis hef ég gert minna en stóð til og hluti sem stóð alls ekki til að gera (t.d. að smella 15.339 á músarhnapp í keppni).

Ég lærði þó nokkra nýja hluti um sjóntaugabólgu (optic neuritis) og verk í augum (opthalmalgiu), hvorugir eru ánægjulegir og er ég sáttur að þekkja einungis annan í raun, þann síðarnefnda.

Ég ákvað einnig í gær að endurnýja kynni mín við gamlan vin á internetinu eða Wulffmorgenthaler
Ég vissi ekki að um leið væri ég að setja líf mitt í stórhættu. Fyrir þá sem ekki þekkja þessar sögur þá eru þær sennilega þær fyndnustu skopmyndir sem hafa fyrir augu mín borið. Smellið bara á hlekkinn og sannfærist.

Allavega fyrstu tvær sem ég skoðaði (kemur ný á hverjum degi) voru ekkert svo agalega fyndnar en ég brosti út í annað en þegar ég kom að 4. apríl sl. þá einfaldlega sprakk ég úr hlátri. Ég veit ekki afhverju, þessi mynd er ekki sú fyndnasta sem hefur komið frá þeim, hún er ekki gríðarlega frumleg en á einhvern hátt þá bara sprakk ég úr hlátri og það átti eftir að koma niður á mér.

Við þennan blessaða hláturkrampa þá magnaðist höfuðverkurinn sem ég hef haft sl. daga svo mikið að ég ætlaði að gráta úr mér augun (gekk illa því ég fann líka til í þeim). Ég hreinlega trúði þessu ekki að ég væri að deyja úr sársauka vegna Wulffmorgenthalers!!! Því meir sem ég reyndi að hætta að hugsa um söguna því meir hló ég að henni og fann þarafleiðandi enn meir fyrir sársaukanum.

 Þetta var skelfilegur tími, nú hinsvegar hef ég treyst mér til að líta aftur á síðuna og var vel undirbúinn, var búinn að taka inn verkjalyf og undirbúa andlegu hliðina undir það að vera grafalvarlegur en það virkaði ekki lengi. Ég einfaldlega sprakk á limminu og grenjaði úr hlátri og vegna höfuðverkjar samtímis, sennilega er þetta eina skiptið sem ég hef grátið vegna þess að ég hló. 

Hér er svo helvítis myndin sem kom öllu þessu af stað.  


Veikindi og clickclickclick

Þessi vika hefur eiginlega alveg farið í súginn, vaknaði miður hress fyrir allar aldir á þriðjudagsmorgun með einhvern versta höfuðverk sem sögur fara af norðan Alpafjalla og ekki batnaði ástandið þegar ég ætlaði að líta á vekjaraklukkuna sem sýndi mjög svo ókristilegan tíma fyrir fótaferðir. Ég ætlaði ekki að geta litið til hliðar, hvorki upp né niður, hægri eða vinstri án þess að finna fyrir hreint út sagt viðurstyggilegum sársauka í augunum. 

Þarna þar sem ég lá í rúminu milli svefns og vöku og að mínu mati mjög svo þjáður fór ég allt í einu að velta fyrir mér forsetakosningunum sem nýlega fóru fram í Nígeríu, inn í þessar hugleiðingar blandaðist svo allt í einu Luke Skywalker sem ætlaði að koma á alvöru paradís í Nígeríu. Ég fann virkilega til með Hr. Skywalker í tilraunum hans við að koma á lýðræði að ég fann hvernig höfuðið ætlaði að rifna í tvennt svona ca eftir þveru og endilöngu os sphenoidales. Ég ákvað því að þá væri tími til kominn að skríða á fætur og gleypa nægilegt magn verkjalyfja svo ég gæti haldið áfram að sofa. 

Eftir að ég komst aftur upp í rúm og beið þess í ofvæni eftir að verkjalyfin færu að verka þá var ég orðinn svo nojaður yfir þessum skelfilegu draumförum sem ég hafði haft um Nígeríu og Luke Skywalker að ég gat með engu móti sofnað, ég lá því andvaka í 5 klukkustundir eða þar til mogginn loksins kom heim. Ekki tók mikið betra við því vegna áðurnefnds augnsársauka þá gat ég ekkert lesið moggann, át því mitt Cheerios fúll í bragði bölvandi þessum veikindum mínum.  

 

Hvað getur maður gert eiginlega þegar maður er veikur?

Lesið, (ekki hægt vegna augnsársaukans), hlustað á tónlist (kom ekki til greina vegna höfuðverkjar), horft á sjónvarp (nei, þarf varla að útskýra hvers vegna)

Ég fór því í tölvuna og fann mér hina líka bestu afþreyingu sem krefst ekki þess að maður lesi, hlusti né geri eiginlega neitt mikið. Fékk meira að segja mikla hreyfingu út úr þessu, takmarkaða að vísu en ég get sagt að ég finni til undan álagsmeiðslum. Ég er að tala um leikinn clickclickclick sem má sjá á þessari vefsíðu.

Ég get með stolti sagt vera sannur Íslendingur, tilheyrt þeirri þjóð sem smellti Magna áfram í úrslit í Rockstar (kom ekki nálægt því þó sjálfur). Nú hef ég loksins sannað mig sem Íslending 21. aldarinnar. Ég stuðlaði að því að koma Íslandi upp um 15.339 sæti í þessum leik og nú verkjar mig í eiginlega allar þær sinar sem tengjast framhandlegg eða hönd hægri handar á einn eða annan hátt. Ég brosi þó í gegnum tárin.

 

 

Ps. var nýbúinn að hlusta á umfjöllun BBC World um Nígeríu og forsetakosningarnar þar ásamt því að hafa fundið á ný StarWars trílógíu diskana. Það vonandi útskýrir kjánalegar draumfarir þriðjudagsins. 


Þetta má enginn láta framhjá sér fara

Þetta má enginn láta framhjá sér fara, hér er á ferðinni byltingarkennd vara því sem á eftir að breyta lífi þínu til framtíðar.

Við kynnum með stolti nýjung á íslenskum markaði LASIK@HOME tækið sem hefur farið sem eldur í sinu meðal skottulækna í hinum stóra heimi. Sjá nánar á http://www.lasikathome.com/

En án alls gríns þá datt ég inn á þessa heimasíðu ekki alls fyrir löngu og þótti mér hún vera stórkostleg. Ég hef þó enga trú á því að þessi síða selji í raun þetta tæki, heldur séu þeir að hafa fólk að fífli ef það ætlar sér að kaupa þetta undratæki. Nota bene blessaður læknirinn sem kynnir þennan handþeytara er sjálfur með gleraugu þrátt fyrir yfirlýsingar um hversu æðislegt tækið sé.

Þessi auglýsing er þó ágætisdæmi um hve langt frá heilbrigðum viðhorfum samfélagið okkar er komið. Nú hugsa eflaust einhverjir að þetta sé nú í Bandaríkjunum en ekki á Íslandi þá vil ég benda á skemmtilega auglýsingu frá íslenska fyrirtækinu Sjónlagi sem birtist á nokkrum stöðum þarna á síðunni. Ég efast nú um að þeir hafi eitthvað með þessa síðu að gera en það er á vægast sagt gráu svæði af þeim að auglýsa starfsemi sína, sbr. læknalög.

Sú hugmynd manna að það megi ávallt finna sér leið til að stytta sér lengdina að einhverju marki er því miður orðin alltof mikið áberandi í umræðu meðal manna um heilbrigði og heilsu. Fólk hikar ekki við að leggjast undir hnífinn til þess að fjarlæga eitt og anna. Það leggur á sig ýmsar þrautir til að "af-eitra" sig. Tekur inn ótal bætiefni, vítamín og orkudrykki til að eldast ekki. Minnir mig svolítið á leitina að æskubrunninum sem leiddi margan Spánverjan til dauða. Upp spretta sjálfmenntaðir / mismenntaðir sérfræðingar í hinum og þessum heilsuvísindum sem því miður oft standa á ekki nægilega föstum grunni og vilja allir selja sína þjónustu. Flestir þessara sérfræðinga vilja eflaust vel og vilja fyrir alla muni sínum skjólstæðingum vel en menn verða að slá varnagla við þeim sem bjóða upp á skammleiðir fyrir lítið fé. Þeir eru varla mikið betri en þeir sem óku um villta vestrið og buðu upp á snáka-elexír og gallsteina úr grábjörnum til að öðlast eilíft líf, allt innan seilingar en einungis fyrir rétta upphæð.

Að lokum auglýsi ég eftir einhverjum sem hefur keypt sér LASIK@HOME eða hefur hug á því að gera það. Mér þætti vænt um að ég fengi að fylgjast með árangrinum af aðgerðinni. Held þó að breytingin sem viðkomandi ætti eftir að finna fyrir á sjóninni sinni verði að vísu fyrir lífstíð, því miður verði það fremur blinda en skýr sjón.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Prófessional Prófastur

Höfundur

Prófasturinn
Prófasturinn
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ~Keilir
  • ~Keilir
  • hackers
  • ...rama_176928
  • ...thor

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband