Til hamingju Íslengingar - upp er runninn merkilegur dagur

Til hamingju Íslendingar, þá sérstaklega þið sem vinnið á börum og veitingahúsum.

Til hamingju með að vera loksins laus undan áþján reykingamanna.

 

Í dag 1. júní 2007 eða fyrir rétt rúmmum tveimur klukkustundum rann upp sú stund þar sem reykingum hefur verið úthýst af börum og veitingahúsum. Loksins loksins

Það er eiginlega ótrúlegt að þessi stund hafi ekki runnið upp fyrr en nú. Engri annarri vinnustétt hefði verið leyft að vinna í jafn heilsuspillandi umhverfi og þjónum og veitingafólki. Vinnueftirlit og heilbrigðisyfirvöld hefðu verið fljót að heimta stöðvun vinnu á meðan úrlausnar væri beðið.

Það hefur verið sýnt fram á óneitanlega sterka fylgni við óbeinar reykingar og reykingatengdra sjúkdóma hvað eftir annað og því finnst mér það furðuleg afstaða sumra sem telja það fullkomlega eðlilegt að rekstraraðilar veitingahúsa eigi að fá að ráða því hvort reykt sé innan húsakynna þeirra eða ekki. Þeir hrópa að markaðurinn eigi að fá að ráða, vilji neytendur ekki fara á veitingastaði þar sem reykt er þá geti þeir farið annað. Einnig geti þeir sem vilja ekki vinna á veitingastöðum þar sem reykt er fengið sér vinnu einhversstaðar annarsstaðar.  Frelsi, Frelsi hrópa þessir einstaklingar en átta sig ekki á því að í raun hljómar þetta sem Helsi, helsi.

 

Hvers vegna ættu þá atvinnuveitendur yfir höfuð eitthvað að velta fyrir sér velferð starfsmanna sinna. Ættu þeir ekki bara að gefa lítið fyrir heilsu þeirra og öryggi á vinnustað. Því jú ef fólk er óánægt þá ætti það bara að vinna annarsstaðar.

Nei, með því að auka vinnuvernd og veita starfsmönnum heilbrigt vinnuumhverfi, fækkar veikindadögum og framleiðni vex. Það í flestum tilfellum merkir að atvinnuveitendur hagnast meira. Það er ástæða fyrir því afhverju asbest var bannað og afhverju hinn ýmsi verndarfatnaður var hannaður.

 

Þrátt fyrir þetta hafa sumir vertar látið í sér heyra og verið með barlóm yfir því að nú skilji á milli feigs og ófeigs í veitingahúsarekstri. Stórkostlegt tap muni blasa við greininni og margir missi atvinnu sína. Máli sínu til stuðnings vísa þeir í misáreiðanlegar kannanir sem annaðhvort voru svo illa gerðar að ekkert mark var á þeim takandi eða að regnhlífarsamtök sígarettuframleiðanda hafa framkvæmt þær (sem gefur vafalaust tilefni til þess að gruna um að valskekkju sé um að ræða). Hins vegar benda þær kannanir sem gerðar hafa verið annaðhvort af yfirvöldum á þeim svæðum þar sem reykingarbann er við lýði eða óháðum samtökum til þess að hagnaður innan veitingahúsageirans hafi aukist eftir reykingabann og að fleiri aðilar komi að rekstri veitingahúsa en fyrir bann.

 

Ég hlakka allavega til að kíkja í bæinn eftir mánuð eða svo og sjá hvort skemmtistaðirnir séu farnir á hausinn.

 

ps. eini atvinnureksturinn sem ég sé fara illa út úr þessari löggjöf (fyrir utan innflytjendur tóbaks) eru fatahreinsanir. Nú missa þær eflaust stóran spón úr aski sínum þar sem maður þarf ekki að mæta í hreinsunina á mánudegi til að losna við reykingalyktina úr fötunum.


LSH - Fossvogi er undraland

Ég sá í dag í fréttum á mbl.is að það eigi að stofna Harry Potter þemagarð innan skemmtigarðsins hjá Universial Studios í Flórída.

Ef einhver kannast við hönnuði eða stjórnendur þessa þemagarð þá er sá hinn sami vinsamlegast beðinn um að hafa samband við mig. Ég hef nefnileg nokkrar skemmtilegar hugmyndir um hvernig megi gera kastala Hogwart´s skóla að raunveruleika.

Eins og allir sem hafa lesið bækurnar / séð myndirnar þá eiga stigarnir í galdraskólanum það til að skipta um stað og beina manni á allt aðrar brautir en maður ætlaði sér í upphafi. Fáir vita að slík undratæki eru til á LSH í Fossvogi. Turnlyfturnar gömlu hafa nefnilega fundið hjá sér sjálfstæðan vilja og geta stundum orðið ansi þverar þegar maður segir þeim að fara á ákveðna hæð þá vilja þær fara annað.

 Þegar ég gekk inn í lyfturnar á fyrstu hæð áðan eftir kvöldmat og ætlaði að venju að enda uppi á 7. hæð þar sem ég hef vinnuaðstöðu, þá endaði ég á 8., 6., 4. og í kjallaranum áður en lyftan sannfærðist um að það væri kannski best að skila mér á 7. hæð. Einnig hef ég tekið eftir því að lyfturnar koma stundum bara ekkert þegar maður kallar á þær. Í fyrradag stóð ég í turninum og hafði kallað eftir lyftu og þá hringdi síminn. Ég svaraði og lendi á spjalli í dágóðan tíma en aldrei kom lyftan. Ég endaði á því að rölta rólega niður stigann á meðan ég talaði í símann. Þegar ég kom loksins niður á 2. hæð þá sá ég báðar lyfturnar þar tilbúnar fyrir einhvern til að fara af stað í óvissuferð.

 

Ég er samt eiginlega hræddastur við að fara í þær seint á kvöldin, kannski vilja þær ekkert hleypa mér út aftur og ég gæti setið fastur í lyftuferð í heilt kvöld. Ég tek því stigann á kvöldin...


Þetta er allt að smella saman

Síðasta vísa vesenið small saman í dag, ég skrapp í Útilíf og keypti mér prússik band og þá vantar mér bara sterkan tvinna og nál og þá er ég tilbúinn. Allavega skv. sænskum gaur sem ég hitti fyrir nokkrum árum. Hann staðhæfði að það eina sem maður þyrfti til að ferðast um í Asíu væri:

    Nál og tvinni (sterkur tvinni)

    Prússik band ca. 10 metrar

    Vasahnífur

    Visa til þeirra landa sem maður ætlar til

    Vegabréf (hálfpartin sjálfgefið hafi maður visað)

    Peningar til að koma sér af stað.

 

Ætli ég bæti þó ekki við þennan lista einni bók eða svo, bakpoka og a.m.k. fötum til skiptana eða kannski aðeins meira af fötum.

 

Nú er bara að vinda sér í ritgerðina, skil á föstudag kl. 15:30 ............ Eins gott að dagurinn á morgun verði nýttur vel.

 

 


Boltinn leikur II

FRAM 0 - 2 VÍKINGUR

Mikið afskaplega hlýtur sóknarmanni nr. 10, Hjálmar Þórarinsson að vera góður leikmaður úr því að Óli Þórðar treysti honum til að klúðra nokkrum dauðafærum í leiknum í gær.

Fáir menn ef nokkrir í efstu deild karla á Íslandi hafa skotið jafn mörgum lélegum skotum aftur fyrir endamörk andstæðinganna eða ekki hitt boltann í einum leik. (Ath. minntist ekki á að hann hefði hitt rammann). Framarar voru óneitanlega betri en getulaus sóknin fór með þá. Víkingar unnu því með einni einfaldri sókn og svo marki úr hornspyrnu eftir að Framarar voru hættir að nenna að spila.

 

Stuðningsmannalið Fram fær þó hrós fyrir að gefa mér veitingar eftir hálfleik og að hafa tekið á sínum boðsmiðamálum sjálfir í staðin fyrir að rétta manni handskrifaða A4 blaðsíðu með nöfnum einhverra sem tíma ekki að borga sig inn á völlinn.

Merkilegt þykir mér alltaf að sjá fólk sem fer í miðasöluna á Laugardalsvelli og kaupir sér miða, gengur svo framhjá inngangingum og yfir í boðsmiða-innganginn og fer þar inn. Stórmerkilegur uppskafningsháttur þar á ferð.


Rússland - Mongólía - Kína tikk takk tikk takk

Jesssöörrrrííííííí

 Nú er loksins sumarfrí í sjónmáli og hægt að telja dagana sem maður á eftir á 3. árinu á höndum og fótum.

Hvað um það, var loksins að fá það staðfest að visað okkar til Rússlands er komið á hreint og þá á ég bara eftir að pikka visað til Kína upp, then I´m ready to goooo

 Ég er eiginlega kominn með nettan nostalgiskan kvíða / tilhlökkunar spenning fyrir því að fara aftur af stað. Ég veit eiginlega ekki hvernig manni á eftir að líða í Hong Kong á leiðinni heim eftir einungis mánuð... Ætli það taki því að vinna nokkuð í sumar? Er ekki bara sniðugra að sannfæra Ága um að það sé geggjuð hugmynd að fara og skoða fjalllendi Víetnam og Angor Vat (sem ég sleppti af kjánalegri ástæðu í síðustu ferð)? Eða þá sem ég er eiginlega viss um að hann væri meira spenntari fyrir, er að fara til V-Kína og skoða Shien Tien fjöllin og jafnvel yfir til Kazaksthan og skrapplappast eitthvað um hásléttuna í kringum Peak Lenin og Peak Kommunisma.

 

Ég get þó huggað mig við það að tveir gaurar eru á flakki núna um heiminn og blogga um þessa ferð sína í gríð og erg. Það er svolítið gaman að lesa um undirbúning þeirra og viðhorf til hlutanna. Sérstaklega m.t.t. kunningi minn frá S-Afríku fór þessa ferð og rúmmlega það fyrir 4 árum síðan.

Þeir Sverrir og Einar hafa undirbúið sig mjög vel, hvað varðar búnað og allt slíkt en ég fæ það á tilfinninguna að þeir hafi kannski ekki ferðast alltof mikið utan "the beaten track" í gegnum tíðina. Það er ekki neitt endilega neikvætt, einhverntíma verða menn að byrja en það er samt einhver barnsleg ánægja sem fylgir því alltaf að uppgötva nýja hluti og að fólk er almennt vingjarnlegt og áhugasamt um ferðalanga hvar sem er í heiminum. Þeir fá a.m.k. hrós fyrir að þora að gera eitthvað annað en að fara í þriggja vikna ferðalag á Spán. Að þora að eiga sér draum og láta hann rætast.

 

Hvað sem svo öðru líður þá verð ég að halda áfram að einbeita mér að beinum, beinmassa, beinþéttni, vöðvamassa og fjölþáttagreiningum. Annars gæti ég misst af eina sumarfríinu sem stendur til boða næstu þrjú árin.


Boltinn að byrja í dag...

Tæknilega séð byrjaði hann í gær en það telst ekki með, upphaf tímabilsins er þegar fyrsti leikurinn er spilaður á Laugardalsvellinum. Í dag er Valur - Fram og maður verður jú á vellinum sem eins og oft áður. 

 

Þar sem viðhorf mitt til fótboltans er bundið við þá staðreynd að ég sé einungis leiki á Laugardalsvellinum og því hef ég oftast lent á heimaleikjum Þróttar, Fram og Vals (byrja allavega þar í sumar) auk landsleikja sem eru alltaf bónus.

 

Heimsóknir hingað eru að skríða yfir fyrsta þúsundið, ekki vissi ég að svo auðvelt yrði að ná þeirri tölu.

 

 


Samsæri? Nei, tónlistarsmekkur...

Jæja á morgun er stór dagur og svei mér þá ef ég þarf ekki að vera sérstaklega iðinn við að vinna í ritgerðinni minni á morgun.

 Í fyrsta lagi eru kosningar eins og allir vita, það er nokkuð forvitnilegt að sjá hver úrslitin verða. Þessi kosninga"barátta" er sennilega leiðinlegasta barátta sem ég hef heyrt um. Það er eiginlega ekki kosið um neitt á morgun. Væri þó bölvuð synd að missa Siv af þingi því þó hún hafi kannski ekki alltaf borið á baki sínu vinsælustu málaflokkana þá hefur hún staðið sig ágætlega.

 

 Í öðru lagi þá er að sjálfsögðu Júróvision, ég er ekki frá því að þetta verði barasta fín upphitun fyrir fyrstu tölur kvöldsins, þó svo að Eiríkur sé ekki á meðal keppenda. Ekki bregst það á hverju ári að fólk fari í fýlu og nöldri um samsæri austantjaldslandanna gegn okkur hinum (vestan megin). Fólk sem að venju er nokkuð dagfarsprútt froðufellir af bræði og heimtar aðgerðir. Ekki gat ég ímyndað mér að dragdrottning, nærbuxnalaus kona og fimmtugur kennari gætu vakið upp svona sterkar tilfinningar meðal Íslendinga.

Nota bene þetta er sama þjóð og var svo sem eiginlega bara sama um Íraksstríðið!!! Íslendingar eru klikk.

Það eru þó nokkur atriði sem tja við með "betri" tónlistarsmekk en "þetta fólk" verðum að spá í:

1. Austantjaldslöndin eru fleiri en þau sem voru vestantjalds (Ath. að Tyrkland, Grikkland, Kýpur og Malta virðast alltaf vera talin sem hálfgerð austantjaldslönd þegar það hentar okkur, ég tel þau ekki með í þeim hópi).

2. Áhorfið í Austur-Evrópu er bara miklu meira en í Vestur-Evrópu.

3. Þau hafa undanfarið samið mörg killer góð lög, þó að vísu enn fleiri ömurleg lög.

4. Þau Vestur-Evrópulönd sem þurftu að taka þátt í forkeppninni voru einfaldlega ekki mjög spennandi:

Portúgal = sæt stelpa, langir leggir og tja það þarf ekkert meir að segja um lagið.

Andorra = Blink182 Evrópu sem virtist leiðast uppi á sviðinu

Sviss = Vampírur í kjánalegum fötum, sennilega fengið að láni frá framleiðendum StarTrek.

Holland = Ægilega eitthvað venjulega leiðinlegt Júróvision lag

Belgía = Fáránlega fyndið, fáránlega falskur gæi og ég hefði orðið brjálaður hefði þetta lag komist áfram.

Danmörk = Klæðskiptingur sem bar bleikar fjaðrir á hausnum, samt ekkert merkilegt lag.

Noregur = Nokkrir kjólar og helsta spurningin hvort hún hafi verið í nærfötum eður ei. Man ekki einu sinni eftir laginu.

Ísland = Eiríkur er jú svolítið költ á Íslandi, rokkarinn sem var hluti af Icy, söng jólalög og GaggóVest. Er góður söngvari og lagið venst ágætlega en mér þótti það ekkert sérstakt þegar ég heyrði það í fyrsta sinn. 

Löndin við Miðjarðarhaf flytja að venju að mínum smekk fremur leiðinleg lög nema þegar Ísrael söng Húbbbahúlla fyrir löngu síðan.

5. Á móti komu nokkur þrælfín lög frá Austur-Evrópu, Ungverjaland (kaus þá, er ég þá að svíkja lit?), Serbía, Slóvenía (venst furðu vel). Einnig önnur fádæma leiðinleg að mínu viti þarna s.s. Búlgaría, Tékkland, Hvíta-Rússland og Eistland.

6. Finnar unnu á síðasta ári sem eiginlega slær fullyrðinguna um að einungis Austur-Evrópulönd eigi séns (fyrirgefst Finnum kannski, þar sem þeir eru austast í Vestur-Evrópu?).

7. Þrátt fyrir mikið tal um plott og svindl og bla bla bla þá hefa frá árinu 2000 einungis þrjár austantjaldsþjóðir unnið, þ.e.a.s.

Eistland árið 2001,

Lettar 2002 og

Úkraína 2004.

Á sama tíma unnu

Danir árið 2000,

Finnar 2006

og Tyrkir 2003

Gleymum heldur ekki að Svíar héldu keppnina árið 2000 þegar Olsen bræður unnu.

Ég hef því aðeins eitt að segja við ykkur landa mína: Hættið þessu tuði því þetta er einfaldlega vitleysa í ykkur.


mbl.is Eiríkur: Samsæri austantjaldsmafíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er sá sem setur textann við myndir með fréttaskýringum?

Þetta skip sem er á myndinni er alls ekkert danska varðskipið Vædderen, er eiginlega ekki líkt því fyrir utan það að það er grátt.

Á myndinni er mynd af Brimli, færeysku varðskipi sem er ca. 5 ára gamall.

 

Ps. hvers vegna í ósköpunum er þessi frétt undir íþróttir?


mbl.is Vædderen fékk viðurnefnið veisluskipið í leiðangri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábær frétt

Gott að heyra að Hraun sé orðinn að fólkvangi en enn betra þykir mér að heyra að hverastrýturnar í Eyjafirði séu loksins komnar á lista yfir friðlýst svæði.

 Fyrir þá sem ekki þekkja þá eru þetta ótrúlegar strýtur sem hafa risið þarna upp frá hafsbotni fyrir tilstilli jarðvarma og þeirra lífvera sem lifa í skjóli hans. Því miður fyrir megnið af Íslendingum eru þessar strýtur ekki sjáanlegar nema þeim sem geta kafað að þeim. Eitt er víst, væru þessar strýtur á aðgengilegri stað þá væru þær eitt af þekktari undrum Íslands.

 


mbl.is Arnarnesstrýtur friðlýstar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða kjánar eru þetta sem skrifa fréttirnar á mbl.is?

Ég eiginlega skil ekki alveg stundum hvað innsláttarvélmennin hjá mbl geta verið eftirtektarlaus eða algerlega úr takti við fréttirnar sem þau skrifa.

Ég veit að Malta er lítil eyja en ef þessi dallur er bundinn við bryggju við Möltu og nær að skyggja gjörsamlega á eyjuna þá er þetta hreint út sagt stærsta skip veraldar og ætti sennilega bara erfitt með að athafna sig á Miðjarðarhafinu.

Þessi bryggja er sennilega minnsta bryggja í heimi og að sama skapi mjög sérstök þar sem hún liggur ekki einu sinni að landi . Þetta er ósköp mikið smáatriði en mér finnst að það megi gera aðeins meiri kröfur á það fólk sem setur fréttir inn á vefmiðlana, það ætti að geta gert meira en að nota copy/paste og Babelfish-translation í vinnunni sinni.

Ps. dallurinn er við akkeri


mbl.is Sarkozy gerir lítið úr snekkjuferðalagi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Prófessional Prófastur

Höfundur

Prófasturinn
Prófasturinn
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ~Keilir
  • ~Keilir
  • hackers
  • ...rama_176928
  • ...thor

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband